Óskað er eftir umsóknum frá skólum fyrir næsta skólaár. Hér að neðan er bréf sem sent var á skóla. 

Um verkefnið

Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari var í fyrsta skipti framkvæmt á þessu skólaári með þátttöku tíu skóla. Verkefninu var komið af stað í kjölfar skýrslu starfshóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem kom út í mars 2013 og fjallar um skákkennslu í grunnskólum. Í þeirri skýrslu var niðurstaðan á þá leið að til að auka skákkennslu í grunnskólum þyrfti fyrst og fremst að fjölga skákkennurum. Til að skákkennsla heppnist sem best þurfi kennarar enn fremur að vera almennir kennarar innan hvers skóla. Niðurstaða starfshópsins var því að leggja til að fara í verkefni sem snýr fyrst og fremst að því að mennta almenna kennara til að kenna skák.

 Á næsta skólaári er áfram lagt er upp með að tíu skólar taki þátt í verkefninu og einn kennari frá hverjum skóla fái kennslu í að kenna skák. Skólar sem taka þátt í verkefninu munu setja eina kennslustund á viku í skákkennslu á stundarskrá þess bekkjar og þess kennara sem tekur þátt í verkefninu. ATH. að sá kennari sem tekur þátt þarf ekki að vera umsjónarkennari þess bekkjar sem tekur þátt.

Allir grunnskólar geta sótt um verkefnið fyrir eina bekkjareiningu í 1.- 4. bekk. Jafnframt geta leikskólar sótt um fyrir sinn elsta árgang.

Verkefnastjóri mun sinna kennslu kennaranna.

Verkefnastjóri mun hitta eða eiga símafund með hverjum þátttakenda við lok þessa skólaárs. Í ágúst er fyrirhugað tveggja daga námskeið í Reykjavík fyrir þátttakendur. Verkefnastjóri mun svo verða viðstaddur kennslutíma í skólum á stóhöfuðborgarsvæðinu og fara í 1-2 kennsluferðir til skóla á landsbyggðinni fyrir áramót.

Jafnframt verður mikill stuðningur gegnum tölvupóst, síma og vefsíðu verkefnisins. Þeir skólar sem taka þátt fá 30.000 kr. styrk til verkefnisins sem eru ætlaður til tafsettakaupa en gæti einnig verið notaður í annan kostnað séu góð taflsett til staðar.

Umsóknarfrestur til að taka þátt í verkefninu er til og með 10. júní 2016.

Engin sérstök eyðublöð eru fyrir umsóknir. Einungis þarf að senda póst á stefan@skaksamband.is með heiti á skóla, nafni á kennara, fyrir hvaða bekkjareiningu er sótt um og fjölda nemenda í þeirri bekkjareiningu. Niðurstöður um valda skóla munu liggja fyrir í síðasta lagi 13. júní.

Skólar sem taka þátt þurfa ákveðinn búnað við upphaf verkefnisins. Búnaðurinn tekur til taflsetta, sýningarborðs og kennslubóka. Kennslubókin Lærið að tefla verður aðal kennsluefni nemenda. Margir skólar eru ágætlega búnir af taflsettum sem þeir geta nýtt sér og þurfa ekki ný.

Kennarar sem taka þátt í verkefninu þurfa ekki að hafa sérstakan grunn í skák.