Við í Grunnskólanum í Hveragerði byrjuðum síðasliðið haust í verkefninu Skákkennari. Við fengum styrk sem fór í að fjármagna tól og tæki. Stefán Bergsson hefur svo verið hér með annan fótinn. Sérstaklega var gott að njóta hans liðsinnis í byrjun. Það hjálpaði mér sem kennara og sömuleiðis held ég að það hafi hjálpað til við að auka áhuga nemenda á verkefninu. Við kennum núna skák í tveimur árgöngum, þ.e. í 4. og 5. Bekk. Það eru tæplega 60 nemendur. Verkefnið hefur smitað út frá sér til annara nemenda. Nú erum við t.d. með sérstakar skákæfingar sem eru  fyrir alla nemendur skólans. Við fengum frábæra heimsókn á degi skákarinnar, Guðmundur Kjartansson kom og tefldi fjöltefli við nemendur skólans. Það fannst mér takast sérlega vel og Guðmundur á hér eflaust marga dygga stuðningsmenn eftir þessa heimsókn.

Nú erum við að samþætta skákina við íslensku kennsluna í 4. og 5.bekk. Þar nota nemendur þau orð sem tilheyra skákinni og flétta saman við íslenskuna og búa til vísur / ljóð sem enda síðan sem skáklag. Við stefnum á að senda til keppni lið í sveitakeppni grunnskóla. Vonandi náum við að keyra það í gegn fyrir komandi ár. Einnig er í smíðum 50 leikur sem er hugsaður fyrir skákkennslu t.d. á skólalóðinni.

Skákin er tvímælalaust að hjálpa til að auka einbeitingu og athygli nemenda. Það sést glöggt hvernig kubbast ofan á þekkinguna. Ég vona það að á næsta skólaári fáum við að halda þessum árgöngum inni í kennslunni og jafnvel að bæta þeim þriðja við.