Nú í haust var sett af stað verkefnið skákkennari. Ég hef ekki kennt skák áður og voru væntingar mínar þær að nemendur mínir myndu öðlast góðan grunn fyrir ýmislegt eins og rökhugsun.  Eftir að hafa farið á námskeið hjá Stefáni Bergssyni og fengið smá innsýn í skákheiminn þá hófst formleg kennsla samkvæmt stundaskrá.  Verkefnið var kynnt fyrir foreldrum.  Í Þjórsárskóla eru samtals 42 nemendur og var ákveðið að 1-4. bekkur,  samtals 25, nemendur fengju kennslu einu sinni í viku.  Stefán mætti í skólann og kom verkefninu af stað.  Nemendum fannst mjög spennandi að fá hann og sýndu mikinn áhuga.  Svo hófst kennslan hjá mér.  Ég byrjaði með peðaskák og leikinn köttur og mús sem er greinilega góð aðferð í byrjendakennslu.  Auk þess horfðum við á fræðslumyndband af chessKid.com.  Það er margt sem hefur komið mér á óvart.  Allt er það ánægjulegt.  Nemendur voru misvel staddir en flestir kunnu ekkert í skák.   Áhugi þeirra er mjög mikill og spyrja þau yngri mig nánast daglega með bros á vör: „Er skák í dag?“   Nú eru þau flest farin að sjá fram í tímann í skákinni og hugsa „hvað geri ég næst og hvað gerir sá sem er á móti mér.“   Mér finnst þetta efla svo margt t.d. það að heilsa andstæðingnum og þakka fyrir skákina er góður siður.  Einnig sjá þau ýmis mynstur sem myndast og svo heyrast setningar eins og :“Ég er að búa til varnarvegg“ og „þetta er að vernda.“  Skák eflir til að mynda líka félagstengsl.  Þau skiptast alltaf á að vera með einhverjum nýjum . Þau læra að tapa.  Svo er einbeitingin.  Stundum má heyra saumnál detta því þau eru flest öll að einbeita sér.  Ég held að almennir grunnskólakennarar hefðu gott af því að fara að kenna skák.  Það sem mér finnst ánægjulegast við verkefnið er að það skilar sér heim til foreldra. Börnin segja mér að þau séu að tefla við mömmu og pabba og sum hafa kennt foreldrum sínum kött og mús.  Ég hef fengið fyrirspurnir frá foreldrum um hvernig leikur köttur og mús er.  Þar held ég líka að samverustund með barninu sé dýrmæt.  Það er svo margt við skákina sem er jákvætt og hef ég talið það upp hér að ofan.  Við í Þjórsárskóla ætlum okkur að hafa kennslu í skák fyrir 5.-7. bekk í lotukennslu  í apríl og kemur þá sá grunnur sem ég hef öðlast að góðum notum.   Með skákkveðjum úr Þjórsárskóla.

 Hafdís Hafsteinsdóttir