Skákkennslan er hafin í Grunnskólanum á Hólmavík. Stefán verkefnisstjóri fór í heimsókn mánudaginn 7. september og kenndi nemendum í þrjár kennslustundir. Nemendur voru afar áhugasamir og gátu státað sig af því að tilkynna að afi þeirra væri fyrrum Íslandsmeistari. Jón Kristinsson fyrrum Íslandsmeistari í skák á sumsé nokkur barnabörn í skólanum. Farið var yfir mannganginn og tefldu nemendur svo peðaskák sína á milli. 

Peðaskák er frábær leið fyrir nemendur til að byrja að tileinka sér ýmsa taktík og strategíu sem notuð er í skák. Skólinn er vel búinn af skáksettum og nýtti styrk verkefnisins í að kaupa 6 skáksett.