Skákkennslan er hafin í Grunnskólanum í Hveragerði. Fjórði bekkur skólans tekur þátt í verkefninu ásamt skákkennara sínum honum Sveinbirni Jóni Ásgrímssyni. Ásamt því að kenna fjórða bekknum skák mun Sveinbjörn einnig kenna skák í fimmta bekk. Kennslan hófst á föstudaginn í síðustu viku þegar Stefán verkefnisstjóri kom í heimsókn. Kennslan gekk vel og voru nemendur áhugasamir. 

Eftir kynningu á heiti taflmanna, mannganginum og skákborðinu sjálfu var farið í peðaskák. Peðaskák er afar góð æfing fyrir nemendur. Peðunum er stillt upp á aðra og sjöundu reitarröð rétt eins og í hefðbundinni skák. Engir aðrir taflmenn eru á taflborðinu. Sá vinnur í peðaskák sem fyrr kemst með peð upp í borð hjá andstæðingnum, eða nær að drepa öll peð andstæðingsins.

            Aðbúnaður til skákkennslu er góður í skólanum. Skólinn nýtti styrkinn sem fylgir þátttöku í verkefninu í að kaupa tíu sett af gæða taflmönnum.