Um miðjan ágúst fóru fram námskeið fyrir kennarana sem taka þátt í Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari. Verkefnisstjóri kynnti verkefnið og forsögu þess. Farið var yfir veturinn, dagskrá og skipulag. Komu fram nokkrar góðar hugmyndir um hvernig framkvæmd verkefnisins mætti takast sem best. Má í því sambandi nefna sameiginlega fésbókarsíðu þátttakanda, samtvinna skákkennsluna við aðrar greinar og heimsókn skákmeistara í skólana.

  Námsefni var kynnt og þá sérstaklega Lærðu að tefla eftir Björn Jónsson formann Taflfélags Reykjavíkur, Skákkennsla eftir Helga Ólafsson skólastjóra Skákskóla Íslands og Skák og mát eftir Siguringa Sigurjónsson skákkennara. Munu skólarnir styðjast við allt þetta efni í sinni kennslu.

            Farið var yfir nokkur atriði hvernig er best að haga fyrstu kennslustundum í skákkennslu. Góðar umræður spunnust og einkennandi fyrir þátttakendur hversu mikinn áhuga þeir hafa á skákkennslu sem þeir hafa þó flestir litla reynslu af.

Á myndinni hér að ofan má sjá Maurice Ashley flytja erindi um skákkennslu á Málþingi í Hörpu árið 2012. Ashley er einn þekktasti skákkennari heims og fyrsti blökkumaðurinn til að verða stórmeistari: https://en.wikipedia.org/wiki/Maurice_Ashley