Um verkefnið

Í ársbyrjun 2013 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sem var falið að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum með sérstakri áherslu á áhrif skákkennslu á námsárangur og félagslega færni barna. Nefndinni var falið að kortleggja stöðu skákkennslu í grunnskólum á Íslandi, afla gagna og vitnisburða og rýna í alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum skákiðkunar í skólum. Auk þess var nefndinni falið að gera tillögur að tilraunaverkefni á sviði skákkennslu. Skýrslu nefndarinnar má finna hér; http://www.menntamalaraduneyti.is/media/forsidumyndir/Skyrsla-nefndar-um-skak.pdf

Ein af helstu niðurstöðum nefndarinnar var sú að til að efla skákkennslu á landinu þyrfti fyrst og fremst að fjölga þeim sem kenna skák. Í framhaldinu var Skáksambandi Íslands falin umsjón með verkefninu Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari. Tilgangur og markmið verkefnisins er að auka færni og þekkingu almennra kennara til að kenna skák. Þátttaka í verkefninu var auglýst á vordögum 2015 og taka tíu skólar og tíu kennarar þátt.

Kennararnir sem taka þátt kenna skák í hverri viku, oftast sama nemendahópnum. Í ágúst var haldið námskeið fyrir kennara. Á námskeiðinu komu fram ýmis atriði varðandi skákkennslu. Verkefnisstjóri stýrir verkefninu og leiðbeinir kennurum í sinni kennslu. Þannig mun hann t.d. kenna með kennurum fyrstu 2-4 vikur skólaársins – og leiðbeina í framhaldinu gegnum síma- og annan fjarskiptabúnað, ásamt því að koma aftur inn í kennslu hvers kennara er líður á veturinn. Jafnframt er stefnt á frekari smiðjur þar sem kennarar koma saman, bera saman bækur og fá frekari þjálfun í kennslu. Framundan í vetur eru ýmis verkefni sem kennarar taka þátt í, t.d. er varða skákmótahald og almennt skipulag skákviðburða. Stefnt er að athugunum á kostum skákkennslu í þeim skólum sem taka þátt.

            Verkefnið er skipulagt til eins árs en stefnt er að áframhaldi þess næstu þrjú árin. Gert er ráð fyrir að nýir skólar komi inn í verkefnið á hverju skólaári.

            Verkefnisstjóri er Stefán Bergsson ráðinn af Skáksambandi Íslands. Stefán skilar mánaðarlegri skýrslu um verkefnið til stjórnar sambandsins sem ber ábyrgð á framgangi þess. Öllum fyrirspurnum má beina til Stefáns á netfangið stefan@skaksamband.is.


 

Skáksamband Íslands | stefan@skaksamband.is | Faxafen 12 | S: 568-9141