Pistill frá Bjarna í Dalskóla

Skák eflir skóla-Kennari verður skákkennari -Dalskóli
Kennari : Bjarni Jóhannsson

Í vetur tók Dalskóli þátt í verkefninu skák eflir skóla -Kennari verður skákkennari. 

Lesa meira

Pistill frá Ingibjörgu Lágafellsskóla

Í Lágafellsskóla Mosfellsbæ hefur verið skákkennsla undanfarin ár. Ég hef verið þeirri gæfu aðnjótandi að hafa haft umsjón með skákkennslunni í skólanum. Markmið mitt að allir nemendur Lágafellsskóla kynnu að tefla varð að veruleika árið 2015 en þá voru allir nemendur skólans á einhverjum tímapunkti búnir að fara í gegnum skákkennslu í skólanum. Skák hefur verið kennd í 1 – 6 árgangi í okkar skóla.

Lesa meira

Pistill frá Sveinbirni í Grunnskólanum í Hveragerði

Við í Grunnskólanum í Hveragerði byrjuðum síðasliðið haust í verkefninu Skákkennari. Við fengum styrk sem fór í að fjármagna tól og tæki. Stefán Bergsson hefur svo verið hér með annan fótinn. Sérstaklega var gott að njóta hans liðsinnis í byrjun. Það hjálpaði mér sem kennara og sömuleiðis held ég að það hafi hjálpað til við að auka áhuga nemenda á verkefninu. Við kennum núna skák í tveimur árgöngum, þ.e. í 4. og 5. Bekk. Það eru tæplega 60 nemendur. Verkefnið hefur smitað út frá sér til annara nemenda. Nú erum við t.d. með sérstakar skákæfingar sem eru  fyrir alla nemendur skólans. Við fengum frábæra heimsókn á degi skákarinnar, Guðmundur Kjartansson kom og tefldi fjöltefli við nemendur skólans. Það fannst mér takast sérlega vel og Guðmundur á hér eflaust marga dygga stuðningsmenn eftir þessa heimsókn.

Nú erum við að samþætta skákina við íslensku kennsluna í 4. og 5.bekk. Þar nota nemendur þau orð sem tilheyra skákinni og flétta saman við íslenskuna og búa til vísur / ljóð sem enda síðan sem skáklag. Við stefnum á að senda til keppni lið í sveitakeppni grunnskóla. Vonandi náum við að keyra það í gegn fyrir komandi ár. Einnig er í smíðum 50 leikur sem er hugsaður fyrir skákkennslu t.d. á skólalóðinni.

Skákin er tvímælalaust að hjálpa til að auka einbeitingu og athygli nemenda. Það sést glöggt hvernig kubbast ofan á þekkinguna. Ég vona það að á næsta skólaári fáum við að halda þessum árgöngum inni í kennslunni og jafnvel að bæta þeim þriðja við.

Lesa meira

Skákgáta

Undanfarnar vikur hefur svokölluð "skákgáta" verið kynnt fyrir skákkennarana og þeir svo notað í tímum hjá sér. Skákgáta er námsleikur sem gefur nemendum tækifæri á að læra á reiti skákborðsins gegnum leik. Yfir reitarröð 4 og 5 setja nemendur boxin sín svo þeir sjái ekki hjá hvor öðrum. Svo raðar sá sem er með hvítt sínum 8 peðum einhvers staðar á þá 24 reiti sem eru a fyrstu þremur reirarröðunum. Svartur raðar sínum 8 peðum einhversstaðar a þá 24 reiti sem spanna svæðið a reitarröð 6 til 8.

 
Engir aðrir kallar eru inni a. Peðin hreyfast ekki. Þau eru skotmörk. Hvítur byrjar ad skjóta með því að segja einhvern reit a svæði svarts og vonast til að hitta. Ef hann hittir er merkt grænn a blaðið en ef hann hittir ekki er merkt rautt. Ef hann hittir er lika peðið tekið útaf. Med thví ad segja "hittir" er átt við ef hvítur byrjar á að segja; .."ég skýt á peð á h6" og svartur er með peð á h6. o.s.frv. Sá vinnur fyrr sem nær að skjót öll peð andstæðingsins.
 
Afar sniðugur leikur sem hún Ingibjörg skákkennari í Lágafellsskóla hefur þróað.

Lesa meira

Pistill frá Hafdísi Þjórsárskóla

Nú í haust var sett af stað verkefnið skákkennari. Ég hef ekki kennt skák áður og voru væntingar mínar þær að nemendur mínir myndu öðlast góðan grunn fyrir ýmislegt eins og rökhugsun.  Eftir að hafa farið á námskeið hjá Stefáni Bergssyni og fengið smá innsýn í skákheiminn þá hófst formleg kennsla samkvæmt stundaskrá.  Verkefnið var kynnt fyrir foreldrum.  Í Þjórsárskóla eru samtals 42 nemendur og var ákveðið að 1-4. bekkur,  samtals 25, nemendur fengju kennslu einu sinni í viku.  Stefán mætti í skólann og kom verkefninu af stað.  Nemendum fannst mjög spennandi að fá hann og sýndu mikinn áhuga.  Svo hófst kennslan hjá mér.  Ég byrjaði með peðaskák og leikinn köttur og mús sem er greinilega góð aðferð í byrjendakennslu.  Auk þess horfðum við á fræðslumyndband af chessKid.com.  Það er margt sem hefur komið mér á óvart.  Allt er það ánægjulegt.  Nemendur voru misvel staddir en flestir kunnu ekkert í skák.   Áhugi þeirra er mjög mikill og spyrja þau yngri mig nánast daglega með bros á vör: „Er skák í dag?“   Nú eru þau flest farin að sjá fram í tímann í skákinni og hugsa „hvað geri ég næst og hvað gerir sá sem er á móti mér.“   Mér finnst þetta efla svo margt t.d. það að heilsa andstæðingnum og þakka fyrir skákina er góður siður.  Einnig sjá þau ýmis mynstur sem myndast og svo heyrast setningar eins og :“Ég er að búa til varnarvegg“ og „þetta er að vernda.“  Skák eflir til að mynda líka félagstengsl.  Þau skiptast alltaf á að vera með einhverjum nýjum . Þau læra að tapa.  Svo er einbeitingin.  Stundum má heyra saumnál detta því þau eru flest öll að einbeita sér.  Ég held að almennir grunnskólakennarar hefðu gott af því að fara að kenna skák.  Það sem mér finnst ánægjulegast við verkefnið er að það skilar sér heim til foreldra. Börnin segja mér að þau séu að tefla við mömmu og pabba og sum hafa kennt foreldrum sínum kött og mús.  Ég hef fengið fyrirspurnir frá foreldrum um hvernig leikur köttur og mús er.  Þar held ég líka að samverustund með barninu sé dýrmæt.  Það er svo margt við skákina sem er jákvætt og hef ég talið það upp hér að ofan.  Við í Þjórsárskóla ætlum okkur að hafa kennslu í skák fyrir 5.-7. bekk í lotukennslu  í apríl og kemur þá sá grunnur sem ég hef öðlast að góðum notum.   Með skákkveðjum úr Þjórsárskóla.

 Hafdís Hafsteinsdóttir 

Lesa meira

Jólamót í Hveragerði

Lítið Jólamót var haldið hjá fjórða bekknum í Grunnskólanum í Hveragerði á föstudaginn var. Nemendur máttu velja hvort þeir tækju þátt í mótinu og tefldu sextán keppendur. Stefán var í heimsókn og stjórnaði mótinu með Sveinbirni skákkennara. Farin var sú leið að um leið og keppendur klárauðu sína skák fóru þeir upp að töfl og biðu eftir næsta pari sem kláraði sína skák. Svo voru þeir paraðir saman sem höfðu unnið sína skák en þeir sem töpuðu tefldu saman. Þannig gekk þetta allt mótið og krakkarnir fengu að tefla við andstæðinga sem jafnmarga eða svipað marga vinninga í hverri skák.

Lesa meira

Köttur og mús

Köttur og mús er góður leikur fyrir byrjendur. Kötturinn getur verið drottning, hrókur, biskup eða riddari. Mýsnar eru alltaf peð. Gegn drottningunni eru átta peð, gegn hróknum eru fimm peð og gegn biskupnum og riddaranum eru þrjú peð. Fyrir leikinn er skákborðið alveg autt. Peðin eru sett einhvers staðar inn á reittaröð tvö eða sjö, öll hlið við hlið. Taflkallinn sem er inn á hverju sinni á að byrja í öðru hvoru horninu. Leikurinn er einfaldur: mýsnar (peðin) eiga að hlaupa alveg upp í borð. Um leið og ein mús kemst alveg yfir skákborðið vinna mýsnar. Kötturinn vinnur með því að ná að drepa allar mýsnar. Í þessum leik æfast krakkarnir í mannganginum á þeim taflkalli sem er verið að nota hverju sinni. Þau æfast einnig í því að hugsa tvo leiki fram í tímann: "hvert getur kötturinn farið núna til að geta drepið mús í næsta leik" er hugsunin..

Lesa meira

Heimsókn í Keflavík

Skákkennslan gengur vel í skólunum í Keflavík. Í Myllubakkaskóla fer kennslan fram í öðrum bekk en í fjórða bekk í Heiðarskóla. Skólarnir hafa báðir bætt taflsettakost sinn og er kennsluaðstaða afar góð. Stefán verkefnisstjóri fór í heimsókn í skólana fimmtudaginn 1. október. Krakkarnir í Myllubakkaskóla fengu kynningu á skákleiknum köttur og mús sem er afar góð æfingaraðferð fyrir byrjendur. Krakkarnir í Heiðarskóla eru komnir aðeins lengra enda í fjórða bekk. Þeir tefldu sín á milli með áherslu á að nota alla taflmennina en ekki bara einn til tvo.

Frétt um þátttöku skólanna birtist í Víkurfréttum.

Lesa meira

Skákkennslan á Hólmavík

Skákkennslan er hafin í Grunnskólanum á Hólmavík. Stefán verkefnisstjóri fór í heimsókn mánudaginn 7. september og kenndi nemendum í þrjár kennslustundir. Nemendur voru afar áhugasamir og gátu státað sig af því að tilkynna að afi þeirra væri fyrrum Íslandsmeistari. Jón Kristinsson fyrrum Íslandsmeistari í skák á sumsé nokkur barnabörn í skólanum. Farið var yfir mannganginn og tefldu nemendur svo peðaskák sína á milli. 

Lesa meira

Frá verkefnisstjóra

Það eru mikil fagnaðartíðindi að verkefnið Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari sé nú hafið. Um hvað snýst verkefnið? Jú, það má ráða af heiti þess; verkefnið snýst um að almennir grunnskólakennarar öðlist þekkingu og reynslu í að kenna nemendum að tefla. Í aðdraganda verkefnisins skilaði nefnd á vegum ráðherra af sér skýrslu. Í þeirri skýrslu kom fram ríkur vilji hjá mörgum skólum til að halda úti reglubundinni skákkennslu. Það sem stæði skákkennslunni helst fyrir þrifum væri skortur á kennurum.

Má því segja að með Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari sé ráðist beint á þetta vandamál. En hvaða kosti þarf maður að hafa til að geta kennt ungum nemendum að tefla? Fyrst og fremst þá almennu kosti sem góður kennari þarf að hafa. Skák er ekkert ólík öðrum kennslugreinum hvað það varðar. Það þarf hvorki að vera skáksnillingur né með áralanga reynslu af skák til að geta kennt hana. Vissulega þarf að hafa ákveðin tök á skákinni, sem og að kunna að nota þær sértæku kennsluaðferðir sem þarf að nota í skákkennslu.  Ég er fullviss um að allir almennir grunnskólakennarar geti tileinkað sér þessi atriði á einu til tveimur misserum.

                Hér á síðunni má nálgast helstu upplýsingar um verkefnið. Þegar ég las stuttlega um þátttakendur verkefnisins var ánægjulegt að lesa svör þeirra við spurningunni um kosti skákkennslu. Þar komu fram ýmis atriði; eykur rökhugsun, skilning á orsök og afleiðingu og kennir um leið góða siði eins og þegar keppendur heilsast í byrjun tafls. Ég er afskaplega sammála öllu þessu. Enda hef ég verið þeirrar skoðunar í mörg ár að börn ættu að læra skák í einn vetur hið minnsta, eina kennslustund á viku, fljótlega eftir að skólaganga þeirra hefst.

Með skákkveðju,

Stefán Bergsson verkefnisstjóri Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari.

               

Lesa meira

Tölfræði Skák eflir skóla

Nú þegar verkefnið Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari er hafið, má leika sér við að skoða smá tölfræði kringum verkefnið. Tíu kennarar í jafnmörgum skólum taka þátt. Þrír karlar og sjö konur. Kennslureynsla þessara kennara telur samtals eitthvað yfir 170 ár. Nemendur eru vel yfir 300 þegar allt er talið. Flestir eru í fjórða bekk en verkefnið tekur til elsta árs í leikskóla til fjórða bekkjar. 

Skipulag kennslunnar er þannig að miðað er við að hver kennari kenni hið minnsta 40 mínútur í skák í viku hverri. Yfir skólaárið sem telur að jafnaði 35 kennsluvikur má því gera ráð fyrir 1400 mínútna skákkennslu hvers kennara að lágmarki.

Að því sögðu er rétt að minnast á að eftir að hvítur og svartur hafa leikið sitthvorum leiknum geta komið upp 400 mismunandi stöður á skákborðinu!

 

Lesa meira

Skákkennslan hafin í Grunnskólanum í Hveragerði

Skákkennslan er hafin í Grunnskólanum í Hveragerði. Fjórði bekkur skólans tekur þátt í verkefninu ásamt skákkennara sínum honum Sveinbirni Jóni Ásgrímssyni. Ásamt því að kenna fjórða bekknum skák mun Sveinbjörn einnig kenna skák í fimmta bekk. Kennslan hófst á föstudaginn í síðustu viku þegar Stefán verkefnisstjóri kom í heimsókn. Kennslan gekk vel og voru nemendur áhugasamir. 

Lesa meira

Námskeið fyrir kennara gengu vel

Um miðjan ágúst fóru fram námskeið fyrir kennarana sem taka þátt í Skák eflir skóla – kennari verður skákkennari. Verkefnisstjóri kynnti verkefnið og forsögu þess. Farið var yfir veturinn, dagskrá og skipulag. Komu fram nokkrar góðar hugmyndir um hvernig framkvæmd verkefnisins mætti takast sem best. Má í því sambandi nefna sameiginlega fésbókarsíðu þátttakanda, samtvinna skákkennsluna við aðrar greinar og heimsókn skákmeistara í skólana.

  Námsefni var kynnt og þá sérstaklega Lærðu að tefla eftir Björn Jónsson formann Taflfélags Reykjavíkur, Skákkennsla eftir Helga Ólafsson skólastjóra Skákskóla Íslands og Skák og mát eftir Siguringa Sigurjónsson skákkennara. Munu skólarnir styðjast við allt þetta efni í sinni kennslu.

            Farið var yfir nokkur atriði hvernig er best að haga fyrstu kennslustundum í skákkennslu. Góðar umræður spunnust og einkennandi fyrir þátttakendur hversu mikinn áhuga þeir hafa á skákkennslu sem þeir hafa þó flestir litla reynslu af.

Á myndinni hér að ofan má sjá Maurice Ashley flytja erindi um skákkennslu á Málþingi í Hörpu árið 2012. Ashley er einn þekktasti skákkennari heims og fyrsti blökkumaðurinn til að verða stórmeistari: https://en.wikipedia.org/wiki/Maurice_Ashley

    

Lesa meira

Skáksamband Íslands | stefan@skaksamband.is | Faxafen 12 | S: 568-9141